Amma í Hrísey

Amma í Hrísey hefði orðið 100 ára í dag , af því tilefni sendi ég inn minningargrein sem ég skrifaði um hana ,en hún lést 5. desember 1996

Blessuð sé minning hennar

Nú er amma í Hrísey dáin og mig langar að minnast hennar í fáum orðum.

Öll sumur sem ég man eftir mér sem krakki tengjast Hrísey og ömmu Rósu og afa Kristni. Valdís, systir mömmu, og fjölskylda hennar bjuggu þá einnig í Hrísey og þarna var mjög gott að vera fyrir barn úr Reykjavík. Hvort sem við krakkarnir lékum okkur niðri í fjöru eða uppi á eyju voru ævintýri á hverju strái og heima beið amma með nýtt soðið brauð og mjólk úr kassa sem geymdur var í ísskápnum. Á góðviðrisdögum gátum við jafnvel svamlað í sjónum eins og á útlendri sólarströnd. Stundum fór ég út á bát með afa. Eftir að ég og systkini mín uxum úr grasi fór ég sjaldnar út í Hrísey en amma fylgdist vel með okkur og var mjög áhugasöm um okkur og við héldum góðu sambandi við hana. Um tíma, eftir að ég var orðin fullorðin, dvaldi ég erlendis og þá sendi amma mér oft bréf og sagði mér fréttir að heiman. Ég var full af ævintýraþrá og það skildi amma greinilega vel því að í einu bréfinu sendi hún mér dægurlagatexta sem henni hefur fundist eiga vel við mig og hefst svona:


Ég kýs að flakka um heiminn og fara mína leið,

frjáls eins og fugl.

Eða flýta mér hægt þó að gatan virðist greið,

 frjáls eins og fugl.

Ég vil elska og lifa og lífsins njóta,

líka ef mér sýnist svo með straumnum fljóta, s

kvetta létt úr klaufunum og boðin brjóta,

frjáls eins og fugl.

(Höf. Ólafur Gaukur)

Þegar afi dó, 1982, varð mjög einmanalegt hjá ömmu. En hún átti góða að, bæði í Hrísey og hér fyrir sunnan, þar sem móðir mín, Brynhildur og systir hennar, Árný, búa. Stundum dvaldi hún vetrarlangt hjá þeim.

Fyrir nokkrum árum fluttist amma á dvalarheimili aldraðra, Dalbæ, á Dalvík. Þar leið henni vel þótt heilsu væri farið að hraka undir það síðasta. Hún var iðin við hannyrðir, málaði meðal annars dúka sem hún sendi dætrum sínum og barnabörnum á jólunum, ásamt sokkum og vettlingum handa langömmubörnunum.

Elsku amma. Ég og systkini mín, Þorbjörg, Gunnhildur Ásta, Elberg og Jóhanna Steinunn, vitum að þér líður vel núna hjá afa og Kidda frænda. Blessuð sé minning þín.

Guðrún Rósa.


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband